26.04.2013
Um nokkurra ára skeið hefur Eðlisfræðifélag Íslands veitt efnilegustu nemendum HÍ og HR hvatningarverðlaun, einum úr hvorum skóla.
Sigtryggur Hauksson fyrrverandi nemandi í MH var HÍ nemandinn sem fékk þessa viðurkenningu á síðasta aðalfundi
Eðlisfræðifélagsins. Til hamingju Sigtryggur!
23.04.2013
Sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25.apríl, halda kórarnir í Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar
Ingólfsdóttur upp á sumarkomu með skemmtun í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Kórfélagar kalla skemmtunina
Vorvítamín.
Kórfélagar, sem eru 111 talsins á þessari vorönn, halda tvenna tónleika. Þeir fyrri hefjast kl.14.00 og hinir seinni hefjast um kl.16.00.
Á milli tónleikanna og á eftir verða seldar kaffiveitingar en ágóði af sölu veitinga renna í ferðasjóð
Hamrahlíðarkóranna.
Þá verða ýmis skemmtiatriði og uppákomur m.a.leikir fyrir
börn,bangsa- og dúkkuspítali, hljóðfærastofa, vísinda- og
tilraunastofa, ljósmyndastofa og fatamarkaður.
Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir að syngja inn vorið með kórunum í Hamrahlíð.
Efnisskrár tónleikanna eiga að vekja með öllum vorhug og sumargleði. Þar er að finna blöndu gamalla gersema og nýrra og m.a. verða flutt
nokkur sumar- og ættjarðarlög, sem allir ættu að geta sungið með kórunum.
22.04.2013
Ásdís María Ingvarsdóttir og Oddur Ingi Kristjánsson færðu MH sigur í Söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri um helgina.
Ásdís María söng lagið Pink Matter með Frank Ocean og Oddur Ingi, sem endurgerði lagið, lék undir á tölvu. Hér er tengill í frétt á mbl.is. Til hamingju Ásdís María og Oddur
Ingi!
08.04.2013
Laugardaginn 6. apríl var haldin árleg keppni Félags frönskukennara og Sendiráðs Frakklands á Íslandi. Um er að ræða keppni
framhaldsskólanema sem senda inn stutt myndbönd þar sem þau tjá sig á frönsku. Í ár var þemað ÁSTIN. Vinningshafi
var Gríma Eir Geirs Irmudóttir nemandi í FRA603. Til hamingju Gríma Eir!
25.03.2013
Nemendur athugið.
Próftafla ykkar er nú aðgengileg á Innu.
Nemendur mega sækja um að hliðra próftöflu sinni
ef:
Tvö próf eru á sama tíma
Þrjú próf eru á sama degi
Ef tvö löng próf, lengri en ein klukkustund hvort próf,
eru á sama degi.
Ekki er leyft að breyta próftöflu vegna ferðalaga!
Nemendur sem uppfylla ofangreind skilyrði geta sent Guðmundi Arnlaugssyni
prófstjóra (profstjori@mh.is) tölvupóst fyrir föstudaginn 12. apríl.
22.03.2013
Föstudagurinn 22. mars er síðasti kennsludagur fyrir páska. Í dymbilviku og um páskahelgina verður skrifstofa skólans lokuð. Eftir
páska verður skrifstofan opnuð kl. 8:30 þriðjudaginn 2. apríl. Kennsla hefst aftur að loknu páskaleyfi miðvikudaginn 3. apríl kl.
8:10.
22.03.2013
Ákveðið hefur verið að gera tilraun til einnar annar með breyttan próftíma. Allir nemendur eiga kost á auka 30 mínútum í framhaldi
af venjulegum próftíma. Ef próftími er 60 mínútur gefst öllum kostur á að sitja í 90 mínútur o.s.frv. Ekki þarf
því að sækja sérstaklega til náms- og starfsráðgjafa um lengdan próftíma í vor. Þeir sem þurfa aðra aðstoð
eða þjónustu sækja um það hjá námsráðgjöfum fyrir 12. apríl.
19.03.2013
Okkar fólk var í 4. og 5. sæti í Spock deildinni sem var 18 liða deild.
Í 4 sæti var liðið "Codebusters" sem í voru Kristófer Montazeri úr MH og Magnús Ágúst Magnússon úr FSu.
Í 5. sæti var liðið "400" sem í voru Bjartur Thorlacius, Ásgeir Valfells og Róbert Björnsson úr MH. Til
hamingju!
13.03.2013
Miðvikudaginn 13. mars verður opið hús í MH frá kl. 17:00-19:00 fyrir grunnskólanema og
forráðamenn þeirra.
Í opnu húsi Menntaskólans við Hamrahlíð verður námsframboð, inntökuskilyrði og félagslíf skólans kynnt.
Deildarstjórar, kennarar, stjórnendur, náms- og starfsráðgjafar, hjúkrunarfræðingur og
forvarnafulltrúi munu sitja fyrir svörum um námsframboð og annað sem gestum liggur á hjarta varðandi nám við skólann.
Náms-og starfsráðgjafar verða með glærusýningu um brautir skólans og ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem huga á
nám hér í M.H.
Leiðsögn nemenda um skólann verður kl. 17:30 og 18:30.
Glæsilegt bókasafn skólans verður opið gestum og einnig gefst tækifæri til þess að kíkja í hinar ýmsu kennslustofur.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð mun bjóða gestum upp á kaffi og með því og syngur nokkur
lög kl. 18:00.
12.03.2013
Úrslit í lokakeppni stærðfræðikeppninnar fóru fram
Í Háskólanum í Reykjavík um síðustu helgi. Efsti keppandi var með
48 stig af 60. Í fimmta sæti var Ásgeir Valfells með 40 stig. Karl Þorláksson og Stefanía Bergljót Stefánsdóttir urðu í 14.-16. sæti með 21
stig. Þau þrjú eru í 16 manna hópi sem tekur þátt í
norrænu stærðfræðikeppninni þann 8. apríl fyrir Íslands hönd. Til hamingju Ásgeir, Karl og Stefanía Bergljót!