Fréttir

Rafræn kennsla út vikuna / Teaching will be online for the next few days.

Kennslan í MH verður rafræn frá og með miðvikudeginum 14. apríl til og með föstudeginum 16. apríl. Kennarar munu gefa nemendum allar leiðbeiningar í gegnum Innu og halda uppi kennslu í rafrænu umhverfi. Þetta eru varúðarráðstafanir sem við teljum rétta að grípa til. Bókasafnið er opið frá 8:10 til 16:00 ef nemendur þurfa að nálgast bækur eða prenta út. Náms- og starfsráðgjafar eru til viðtals í gegnum tölvupóst eða síma.

Úrslit í vegglistasamkeppni nemenda

Nýlega fór fram samkeppni milli nemenda MH um vegglistaverk á gang milli Norðurkjallara og Undirheima. Fjöldi verka barst í samkeppnina og voru verk eftir eftirtalda nemendur valin: Noru Evu Sigurdsson, Hannes Hreim Arason Nyysti, Freyju Stígsdóttur, Elísabetu Maríu Hákonardóttur, Kötlu Björgu Sigurjónsdóttur og Auði Grétu Þórisdóttur. Við óskum þessum nemendum innilega til hamingju með verkin og viðurkenninguna. Í dómnefnd sátu fulltrúar nemenda, kennara og stjórnenda. Alls bárust rúmlega 50 verk í samkeppnina sem staðfestir enn og aftur sköpunarkraftinn sem ríkir á meðal nemenda MH.

Glæsilegur árangur í úrslitum landskeppninnar í efnafræði

MH-ingurinn Oliver Sanchez sigraði í úrslitum landskeppni í efnafræði en hann sigraði einnig forkeppnina sem fór fram fyrir skömmu. MH-ingurinn Telma Jeanne Bonthonneau varð í fjórða sæti og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Oliver stundar nám á IB-braut og Telma Jeanne á náttúrufræðibraut. Fjórum stigahæstu keppendum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu í efnafræði 2021. Þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 5. Norrænu efnafræðikeppninni sem (vonandi) verður haldin í Reykjavík dagana 19. - 23. júlí og í 53. Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði sem verður haldin gegnum netið frá Japan, dagana 24. Júlí -1. ágúst 2021.

Kennsla eftir páska / Teaching after the Easter break

Við vonum að nemendur og starfsfólk hafi haft gott páskafrí. Skipulag skólastarfs eftir páska er sem hér segir: (see English below) • Fullt staðnám í öllum áföngum með einni undantekningu (lífsleikni útskriftarefna). • Kennsla í líkamsrækt verður úti. Nánari upplýsingar hjá kennurum. • Nemendur mega vera 30 saman í rými og ber að virða nándarreglur. • Grímuskylda er í MH. • Rými á Matgarði og Miðgarði eru afmörkuð miðað við leyfilegan fjölda. • Norðurkjallari getur rúmað allt að 60 nemendur, þ.e. 30 í hvoru rými (fremra og aftara rými). • Matsala nemenda, Sómalía, verður opin og selur vörur í lokuðum umbúðum. Virðum reglurnar og höfum einstaklingsbundnar sóttvarnir í fyrirrúmi, þ.e., handþvottur og sótthreinsun eru það allra mikilvægasta. Ef nemendur finna til einkenna tengdum COVID þá eiga þeir að vera heima og tilkynna veikindi á skrifstofu. Nánari upplýsingar um verkferla vegna smits og gruns um smit má finna á heimasíðu skólans.