12.02.2020
Þýskir kvikmyndadagar hefjast í Bíó Paradís föstudaginn 14.febrúar og standa til 23. febrúar. Eins og undanfarin ár er nemendum boðið upp á ókeypis nemandasýningu ásamt poppi og coke. Sýningin verður þriðjudaginn 18. febrúar kl. 20 í Bíó Paradís og varð myndin BALLON fyrir vali. Sú mynd er heldur betur við hæfi þar sem við fögnum 30 ára sameiningu þýskalands og falls múrsins á þessu ári. Þýskukennarar MH hvetja alla til að mæta.
03.02.2020
Erla Guðmundsdóttir líkamsræktarkennari í MH sýndi fjölbreytta hæfileika í Crossfitkeppni Reykjavíkurleikanna þegar hún lenti í öðru sæti í sínum aldursflokki. Keppnin var jafnframt Íslandsmót í Crossfit og árangurinn því glæsilegur. Við óskum Erlu innilega til hamingju með árangurinn en það er óhætt að fullyrða að hún er góð fyrirmynd.
03.02.2020
Japanska er eitt af 10 erlendu tungumálunum sem kennd eru í MH þessa vorönn. Í dag heimsóttu nokkrir nemendur í japönsku skrifstofuna og kynntu hugmyndir sínar um ferðaáfanga í japönsku. Kynningin var fín og féll vel í kramið hjá stjórnendum sem leggjast nú undir feld að kanna málið.
31.01.2020
"Stelpur diffra" er heiti á lokaverkefni sem Nanna Kristjánsdóttir nemandi í MH kynnti á kennarafundi í vikunni. Af því tilefni afhenti Nanna rektori mynd sem hún vann sem svar við annarri mynd þar sem Nanna gerir leiðréttingu á stærðfræðingatali sem skólinn á. Leiðréttingin sýnir konur sem lagt hafa ýmislegt að mörkum til stærðfræðinnar í gegnum aldirnar. Takk Nanna fyrir að leiðrétta þetta.
31.01.2020
Stjórn NFMH ásamt fulltrúum náms-og starfsráðgjafa og stjórnenda voru mætt í Sæmundarskóla í gær að kynna skólann fyrir nýnemum haustsins 2020. Margir komu og voru forvitnir um skólann. Næsta kynning verður 11. febrúar í Tækniskólanum í Hafnarfirði og þá gefst fleirum kostur á að koma og kynna sér skólann.
24.01.2020
Forkeppnin í líffræðinni fór fram í janúar og tóku rúmlega 130 nemendur framhaldsskólanna þátt. Níu nemendur MH tóku þátt að þessu sinni og átti skólinn tvo nemendur í efstu 25 sætunum sem komast áfram í úrslitakeppnina. María Guðjónsdóttir varð í þriðja sæti og Magnús Alexander Sercombe varð í 8.-11. sæti.
Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.
23.01.2020
Fyrsta hverfakynning framhaldsskólanna var haldin í gær í Fjölbrautaskóla Garðabæjar. Næsta kynning verður 30. janúar í Sæmdundarskóla. Á kynningarnar mæta fyrir hönd MH fulltrúar stjórnenda, námsráðgjafa og nemenda. 4.mars verður svo opið hús í MH fyrir grunnskólanemendur og aðstandendur þeirra.
16.01.2020
Til og með 17. janúar er hægt að segja sig úr áfanga án þess að fá fall. Það er gert með því að koma við hjá námsráðgjafa, námstjórum eða á skrifstofunni. Eftir það er ekki hægt að segja sig úr áfanga og verða nemendur að vera í þeim áföngum sem þeir eru með í töflunni sinni.
Eftir 5 vikur af kennslu er mæting nemenda skoðuð skv. nýjum reglum um lágmarksmætingu í áfanga. Ef raunmæting er undir 60% þá er nemandi skráður hættur í áfanganum.
08.01.2020
Þriðjudaginn 7. janúar keppti lið MH í Gettu betur á móti liði Menntaskólans í tónlist (MÍT). Leikar fóru þannig að lið MH sigraði með 22 stigum gegn 15 stigum MÍT. Það er skemmtileg staðreynd að fjöldi nemenda MÍT stundar bóklegan hluta námsins í MH.
Lið MH skipa þetta árið Bára Þorsteinsdóttir, Arney Íris E Birgisdóttir og Ari Hallgrímsson.
Við óskum liði MH innilega til hamingju með sigurinn. Í næstu umferð þann 16. janúar mætir liðið Kvennaskólanum í Reykjavík.
06.01.2020
Þeir sem ekki sóttu um töflubreytingar í gegnum Innu þurfa að mæta hjá námstjórum til að láta laga töflurnar sínar.