Fréttir

Aldarafmælis dr. Róberts A. Ottóssonar minnst 17. maí kl. 20:00 í MH

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórinn minnast dr. Róberts A. Ottóssonar með dagskrá í hátíðarsal MH á uppstigningardag, fimmtudaginn 17. maí kl. 20, en þann dag er öld liðin frá fæðingu Róberts. Hann fæddist í Berlín og stundaði þar tónlistarnám en flýði hingað til lands undan nasismanum árið 1935. Róbert var meðal merkustu tónlistarmanna landsins og starfaði á ýmsum vettvangi, meðal annars sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Söngsveitarinnar Fílharmóníu, söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar og kennari við Háskóla Íslands og Tónlistarskólann í Reykjavík. Þá var hann fyrsti Íslendingurinn til að ljúka doktorsprófi í tónvísindum með ritgerð sinni um Þorlákstíðir. Hamrahlíðarkórarnir syngja undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur, sem var nemandi Róberts, útsetningar hans á íslenskum og erlendum lögum, meðal annars raddsetningar sem hann gerði sérstaklega fyrir Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Einnig flytja kórarnir Miskunnarbæn fyrir kór og strengjasveit, sem er eitt fárra frumsamdra tónverka sem Róbert lét eftir sig. Þá mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur flytja erindi um líf og starf Róberts. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. 

Próf eru hafin

Veikindi á prófdegi verður að tilkynna skrifstofu skólans (S: 5955200) fyrir kl. 14 samdægurs. Þá fær nemandinn upplýsingar um sjúkrapróf. Nemandinn mætir í sjúkrapróf á tilsettum tíma og skilar þar læknisvottorði fyrir veikindadaginn. Guðmundur Arnlaugsson prófstjóri er með viðtalstíma kl. 10 - 11 í st. 38.

Dimissjón

Stúdentsefni kveðja skólann með skemmtun á sal kl. 11:10 - 12:10.

Ræðulið MH í úrslitum Morfís 26. apríl

Ræðulið MH stóð sig ótrúlega vel á móti MA fimmtudaginn 29. mars. Með sigrinum er liðið komið í úrslit MORFÍs í fyrsta sinn síðan árið 2008. Keppnin verður haldin í Eldborgarsal Hörpu 26. apríl næstkomandi.

Söngkeppni framhaldsskólanna í kvöld

Sýnt verður beint frá Söngkeppni framhaldsskólanna á RÚV í kvöld. Nemendur MH eru meðal 12 efstu keppenda og hér má sjá myndband MH. Flytjandi/endur: Karen Andreassen Þráinsdóttir, Guðmundur Þórir Hjaltason, Bryndís Þorleifsdóttir, Ása Kolbrún Ásmundsdóttir, Elín Sigurvinsdóttir, Þórey Unnur Árnadóttir, Ingvar Haukur Jóhannsson. Vel gert!

Nemendur styrkja Göngum saman um 250 þúsund krónur

Í dag fengu samtökin Göngum saman afhentar 250 þúsund krónur til stuðnings grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini. Formaður félagsins Gunnhildur Óskarsdóttir tók við framlaginu og var þakklát nemendum fyrir stuðning við þetta mikilvæga málefni.

MH fær silfurviðurkenning í átakinu Heilsueflandi framhaldsskóli

Í dag tóku fulltrúar skólans við silfurviðurkenningu í næringarhluta átaksins Heilsueflandi framhaldsskóli. Karen María Magnúsdóttir forseti nemendafélags MH og Áshildur Arnarsdóttir verkefnisstjóri átaksins í MH tóku við viðurkenningunni úr hendi Héðins Svarfdal Björnssonar frá Lýðheilsustöð. Vel gert MH-ingar!

Próftafla og umsóknir nemenda um breytingar

Próftafla nemenda fyrir vorönn 2012 er nú aðgengileg í Innu.Hægt er að sjá próftöfluna með því að fara í Innu og smella á Próftafla  á lista vinstra megin. Athugið að próftaflan er einungis aðgengileg í Innu. Dagskólanemar mega sækja um að hliðra próftöflu sinni ef: Tvö próf eru á sama tíma Þrjú próf eru á sama degi Ef tvö löng próf, lengri en ein klukkustund hvort próf, eru á sama degi. Ekki er leyft að breyta próftöflu vegna ferðalaga! Ef þú þarft að láta færa til próf og uppfyllir ofangreind skilyrði getur þú sent prófstjóra tölvupóst. Umsókn um tilhliðrun ásamt útskýringu þarf að berast í tölvupósti til prófstjóra (gud@mh.is) í síðasta lagi föstudaginn 13. apríl.

Páskaleyfi

Föstudagurinn 30. mars er síðasti kennsludagur fyrir páska. Í dymbilviku og um páskahelgina verður skrifstofa skólans lokuð. Eftir páska verður skrifstofan opnuð kl. 8:30 þriðjudaginn 10. apríl. Kennsla hefst aftur að loknu páskaleyfi miðvikudaginn 11. apríl kl. 8:10.

Kórinn að leggja af stað frá Bíldudal

Kórinn sem áætlað var að kæmi heim að kvöldi mánudags var veðurteptur á Bíldudal þar sem gist var í nótt. Nú er gert ráð fyrir brottför frá Bíldudal um kl. 16, því veður hefur aðeins lægt á heiðunum í kring, og áætluð heimkoma undir miðnótt.