19.08.2022
Áður en nemendur skólans setja upp Office365 hugbúnaðarpakkann þurfa allir að virkja tvíþáttaauðkenni. Eldri nemendur gerðu það á síðustu önn en nýir nemendur þurfa að gera það núna. Leiðbeiningar um það má finna á heimasíðunni. Eftir það geta nemendur fylgt leiðbeiningum um Office 365 pakkann. Nemendur hafa verið að lenda í vandræðum en vonandi fá allir lausn sinna mála.
17.08.2022
Skólasetning er kl. 9:00 á Miklagarði fimmtudaginn 18. ágúst og í kjölfar skólasetningar hefst kennsla. Á skólasetningu munu rektor og forseti NFMH flytja stutt ávörp.
Við hvetjum alla nemendur skólans til að fjölmenna á Miklagarð og fagna upphafi skólaársins.
14.08.2022
Stundatöflur eru núna sýnilegar í Innu. Endilega lesið vel pósta sem sendir hafa verið á alla nemendur skólans og má einnig finna hér á heimasíðunni undir Skólinn. Gleðilega haustönn 2022.
12.08.2022
Stundatöflur nemenda verða sýnilegar í Innu sunnudaginn 14. ágúst, fyrir þá sem greitt hafa skólagjöld. Athugið að þið þurfið að nota rafræn skilríki eða íslykil til að komast inn á Innu.
Eldri nemar sem telja sig þurfa töflubreytingu eiga að sækja um sem allra fyrst (eftir að stundatöflur birtast) í gegnum Innu. Breyttar töflur birtast í Innu eftir því sem þær vinnast. Hægt er að biðja um töflubreytingar í gegnum Innu til og með miðvikudeginum 17. ágúst. Eftir það þarf að fara til námstjóra eða áfangastjóra. Hvetjum við ykkur til að ganga frá þessu sem fyrst.
Námsgagnalisti/bókalisti er aðgengilegur í Innu.
Nýnemar sem eru að byrja í MH sækja EKKI um töflubreytingar í Innu heldur geta gert það hér í MH, hjá námstjórum, milli 10:00 og 14:00 15., 16. og 17. ágúst.
Timetables for Fall 2022
Students who have paid their tuition fees can check their timetable on Inna. If you are an IB student all your changes have to go through Soffía Sveinsdóttir.
Futher information about the start of the school will come later.
09.08.2022
Gleðilega haustönn!
Nú líður að upphafi skólaársins og væntanlega ríkir tilhlökkun hjá nemendum að mæta aftur í skólann. Skrifstofa skólans er opin 8:30-12:00 og 12:30-15:30.
Við minnum á eftirfarandi við upphaf skólaársins:
Stundatöflur birtast hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin sunnudaginn 14. ágúst.
Töflubreytingar hefjast um leið og töflur hafa verið birtar.
Eldri nemendur skólans geta gert töflubreytingar í Innu en nýnemar og eldri nýnemar sem eru að hefja nám hjá okkur í fyrsta skipti núna í haust þurfa að koma og hitta námstjóra ef þeir telja sig þurfa töflubreytingar. Áfangalista má finna á heimasíðunni.
Námstjórar verða við milli 10:00 og 14:00 15., 16. og 17. ágúst.
Nýnemakynning verður 17. ágúst kl. 13:00 á Miklagarði.
Fyrsti kennsludagur verður 18. ágúst og hefst með skólasetningu inn á Miklagarði kl. 9:00.
Nemendur fá sendan tölvupóst með upplýsingum í lok vikunnar og hvetjum við ykkur til að lesa hann vel.
22.06.2022
Við í MH erum farin í sumarfrí og verður skrifstofan opnuð aftur mánudaginn 8. ágúst kl. 10:00. Nýnemar haustannar 2022 ættu að geta séð upplýsingar inni á Menntagátt um stöðu umsókna sinna í framhaldsskóla. Velkomin í MH. Upplýsingar til nýnema MH má lesa hér á heimasíðunni og verða einnig sendar út í tölvupósti 23. júní. Njótið sumarsins og við sjáumst öll hress í ágúst.
31.05.2022
Skrifstofa skólans verður opin 9:00-15:00 (lokað 12:00-12:30) til og með 22. júní. Skrifstofan lokar svo þann 23. júní og opnar aftur eftir sumarfrí þann 8. ágúst.
28.05.2022
Brautskráðir voru 136 nemendur frá Menntaskólanum við Hamrahlíð af sjö námsbrautum. Að þessu sinni útskrifuðust flestir af opinni braut eða 70 nemendur, 20 af náttúrufræðibraut, 16 af félagsfræðabraut, 8 af málabraut, 5 af listdansbraut, 1 af fjölnámsbraut og 14 af IB-braut (alþjóðlegt stúdentspróf).
Tíu nemendur voru brautskráðir með ágætiseinkunn á stúdentsprófi, þ.e. vegin meðaleinkunn yfir 9,00. Að þessu sinni var dúx skólans Iðunn Björg Arnaldsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut með framúrskarandi árangur, þ.e. 9,82. Iðunn Björg hlaut auk þess viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í líffræði og efnafræði auk þess að hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Semidúx var Lóa Floríansdóttir Zink sem útskrifaðist af opinni braut með 9,61 í meðaleinkunn en hún hlaut einnig viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í frönsku.
Ávarp fyrir hönd nýstúdenta fluttu Kristín Taiwo Reynisdóttir og Pjetur Már Hjaltason. Fulltrúi 40 ára stúdenta, Ármann Höskuldsson prófessor, flutti ávarp fyrir þeirra hönd.
Kór skólans var í stóru hlutverki undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar og flutti nokkur verk auk þess sem aðrir nemendur og nýstúdentar fluttu tónlist.
27.05.2022
Dagana 22.-25. maí fór hópur úr MH til Berlínar, en með ferðinni lauk svokölluðum Berlínaráfanga þar sem nemendur hafa alla önnina verið að kynna sér þessa mögnuðu borg, sögu hennar og menningu. 13 nemendur og 2 kennarar fóru í ferðina, sem heppnaðist mjög vel. Dagskráin var þétt og margir áhugaverðir staðir heimsóttir, en einn af þeim var einmitt þinghúsið. Þar er hægt að ganga upp í glerhvelfinguna sem er ofan á húsinu og njóta stórfenglegs útsýnis yfir borgina. Það voru sælir en þreyttir ferðalangar sem komu heim frá Berlín og flestir höfðu á orði að þeir þyrftu að fara þangað fljótt aftur til að kynnast borginni enn betur.
25.05.2022
Brautskráning verður laugardaginn 28. maí kl. 13:00 en þá munu 136 brautskrást frá skólanum.
Myndataka fyrir útskriftarefni verður fyrir athöfnina fyrir framan myndlistarstofuna og hefst hún kl. 12:00. Æfing með útskriftarefnum er föstudaginn 27. maí kl. 17:30 og verða þá veittar nánari upplýsingar um skipulag brautskráningar.
Athöfninni verður streymt inn á eftirfarandi vefslóð: https://livestream.com/accounts/5108236/events/10432735