22.04.2022
10. bekkingar sem misstu af opnu húsi eru velkomnir að koma í heimsókn í vikunni 25.-27. apríl kl. 16:15-17:30. Þeir sem vilja þiggja boðið geta skráð sig á þann dag sem hentar. Á þessum kynningum taka náms- og starfsráðgjafar á móti nemendum og kynna þeim skólann og einnig munu nokkrir núverandi MH-ingar vera til staðar og sýna skólann. Ef þú misstir af opna húsinu 6. apríl þá er þetta tækifæri sem þú vilt ekki láta fram hjá þér fara. Við bendum líka á kynningarefni sem má finna á heimasíðunni.
22.04.2022
Úrslitakeppnin í Almennu landskeppninni í efnafræði fór fram fyrir páska og áttu nokkrir MH-ingar pláss þar og stóðu sig allir mjög vel. Sérstaklega má geta þess að Embla Nótt Pétursdóttir lenti í fyrsta sæti og Iðunn Björg Arnaldsdóttir í því þriðja. Fjórum stigahæstu keppendum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu í efnafræði 2022. Þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 5. Norrænu efnafræðikeppninni sem verður haldin í Reykjavík dagana 4.-8. júlí og 54. Alþjóðlegu Ólympíukeppninni sem verður haldin gegnum netið frá Kína, dagana 10.-20. júlí.
Innilega til hamingju með árangurinn öll sem tókuð þátt.
07.04.2022
Við viljum þakka öllum sem komu á opið hús í gær fyrir komuna og þeir sem misstu af eða vilja koma aftur geta skráð sig á kynningar sem verða eftir páska. Nánari upplýsingar má finna undir viðburðir hér á heimasíðunni.
06.04.2022
Við í MH bíðum spennt eftir að taka á móti áhugsömum nemendum og fjölskyldum þeirra í dag. Það er allt að verða tilbúið. Sjáumst á opnu húsi sem hefst kl. 17 og stendur til 18:30.
04.04.2022
Miðvikudaginn 6. apríl verður opið hús í MH. Á opnu húsi gefst 10. bekkingum og aðstandendum þeirra tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð í MH, félagslíf nemenda og aðstöðuna í skólanum. Boðið verður upp á leiðsögn um skólann þar sem gestir fá að sjá brot af því besta sem skólinn býður upp á. Kennarar og annað starfsfólk kynnir námsframboðið á Miðgarði og Miklagarði og kórinn mun taka lagið. Kíkið endilega í heimsókn, við tökum vel á móti ykkur.
17.03.2022
Í gær var kynnt niðurstaða úr könnuninni Stofnun ársins. Skólinn varð í fjórða sæti í flokki stofnana með fleiri en 90 starfmenn en í hverjum stærðarflokki hljóta efstu fimm stofnanirnar sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnanir og er MH í þeim flokki annað árið í röð. Þegar könnunin var framkvæmd síðast var skólinn í fimmta sæti og hækkar því um eitt sæti milli ára sem er afar jákvæð niðurstaða. Skólanum og starfsfólki er óskað til hamingju með niðurstöðuna.
17.03.2022
Próftafla vorannar hefur verið birt á heimasíðunni og nemendur geta einnig séð sína eigin próftöflu í Innu. Prófstjóri sendi póst í dag til að minna alla á að skoða próftöfluna sína og fara vel yfir hvort þið séuð í tveimur prófum á sama tíma eða í tveimur prófum á sama degi og getið þar með sótt um breytingu á próftöflunni ef þið viljið.
14.03.2022
Almenna landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins fimmtudaginn 3. mars. Alls tók 51 nemandi þátt, úr fimm skólum en 15 efstu keppendunum er boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem verður haldin í Háskóla Íslands helgina 2.-3. apríl næstkomandi. Fimm MH-ingar voru á meðal þeirra 15 efstu og komast áfram í úrslitakeppnina. Það eru þau Embla Nótt Pétursdóttir, Jón Halldór Gunnarsson, Matthías Jakob Sigurðsson, Iðunn Björg Arnaldsdóttir og Mikael Norðquist. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis í úrslitakeppninni.
12.03.2022
Föstudagskvöldið 11. mars frumsýndi Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð leikritið Á móti straumnum (Way Upstream e. Alan Ayckbourn) í leikstjórn Rebekku Magnúsdóttur. Leikritið fjallar um tvenn hjón sem leigja bát og fara saman í skemmtisiglingu. Siglingin tekur óvænta stefnu þegar bjargvættur þeirra reynist vera siðblindur sjóræningi sem tekur bátinn yfir. Á endanum verða þau öll að velja hvort þau eigi að sigla með eða á móti straumnum. Sýningin var mjög skemmtileg og sýndi leikhópurinn ótrúlega hæfileika á öllum sviðum. Við hvetjum alla sem tök hafa á að skella sér á sýninguna í Undirheimum. Upplýsingar um sýningartíma má finna á tix.is.