08.09.2021
Í gærkvöldi var haldinn rafrænn foreldrafundur með foreldrum og aðstandendum nýnema haustsins 2021. Rektor flutti ávarp, Fríður náms-og starfsráðgjafi sagði frá stoðþjónustu skólans og Ásdís Lovísa tók alla í lífsleiknitíma og kynnti námið í MH. Næst söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð 3 lög undir stjórn Hreiðars Inga og í þriðja laginu bættust nýjustu kórmeðlimirnir við og tóku undir. Eftir kórsögninn talaði Bóas sálfræðingur skólans og í lokin sagði Kristín Finndís frá foreldrafélaginu. Hægt er að horfa á streymið frá fundinum hér, ef einhver missti af.
07.09.2021
Gamla myndlistarstofan hefur fengið nýtt hlutverk eftir kennslu á þriðjudögum og fimmtudögum. Þá breytist stofan í saumastofu nemenda MH. Þar hittast nemendur sem áhuga hafa á saumaskap og ýmiss konar handavinnu. Hópurinn hefur til umráða nokkrar saumavélar sem nemendafélagið hefur eignast og er ætlunin að sauma mark sitt á MH. Allir sem áhuga hafa eru velkomnir að bætast í hópinn.
07.09.2021
Íþróttakennsla hefur verið utanhúss það sem af er önninni en færist nú inn í hús frá og með miðvikudeginum 8. september. Við hvetjum nemendur til að mæta með viðeigandi íþróttafatnað og skó til notkunar innanhúss. Í MH er góð aðstaða til íþróttaiðkunar í þremur íþróttasölum. Stór salur fyrir bolta- og badmintonáfanga, minni salur fyrir jógaáfanga og lyftingaraðstaða fyrir lyftingar- og þrekáfanga. Einnig er í boði að taka fjallgönguáfanga og áfangann hjólað í skólann.
01.09.2021
Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir jöfnunarstyrks fyrir námsárið 2021-2022 og eru nemendur hvattir til að sækja um strax fyrir báðar annir námsársins. Umsóknarfrestur haustannar er til og með 15. október n.k. og vorannar til og með 15. febrúar n.k. Sótt er um á MITT LÁN og ISLAND.is með rafrænum skilríkjum.
Ef nemendur óska eftir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is. Nánar má lesa um jöfnunarstyrk á síðu Menntasjóðs.
31.08.2021
Háskóli Íslands úthlutaði nýlega styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans. Að þessu sinni fengu 37 nemar styrk og voru 7 MH-ingar í þeim hópi. Við óskum þessum MH-ingum innilega til hamingju með styrkinn og erum stolt af þeim.
Styrkþegarnir eru Bragi Þorvaldsson, Embla Rún Halldórsdóttir, Freydís Xuan Li Hansdóttir, Ragnheiður María Benediktsdóttir, Ragnhildur Björt Björnsdóttir, Steinunn Kristín Guðnadóttir og Uloma Lisbet Rós Osuala. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu HÍ.
30.08.2021
Í síðustu viku bauðst nemendum MH að skrá sig í raddprufur fyrir kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Fyrsti dagurinn er í dag og mæta þá þeir sem skráðu sig í mánudagsprufurnar. Á miðvikudaginn verða svo raddprufur fyrir þá sem skráðu sig í miðvikudagsprufurnar. Ef einhver gleymdi að skrá sig þá má sá hinn sami senda Hreiðari Inga kórstjóra póst, fyrir fimmtudaginn, og athuga með tíma í raddprufu. Fyrstu tónleikar kórsins verða á fundi fyrir foreldra nýnema sem verður þriðjudaginn 7. september. Það verður gaman að fá að sjá og heyra í kórnum þá með nýja meðlimi innanborðs.
19.08.2021
Við í MH tökum spennt á móti nemendum í dag og hefst skólinn kl. 9:00. Nemendur mæta í stofurnar sínar skv. stundaskrá og byrjar tíminn á stuttri rafrænni skólasetningu rektors. Nýnemar skólans fá sérstaka athygli í dag frá nemendafélaginu-NFMH og verður ýmislegt gert til að bjóða þau velkomin í skólann. Matarvagnar verða á bílaplaninu milli 11:15 og 12:50 þar sem flestir ættu að geta keypt sér eitthvað við hæfi í tilefni dagsins. Það er vegna þeirra sem bílaplanið fyrir framan skrifstofuna er lokað. Ef einhver á eftir að láta laga stundatöfluna sína þá eru námstjórar og áfangastjóri tilbúin að taka á móti breytingum á skrifstofu skólans. Gleðilegt nýtt skólaár.
17.08.2021
Þar sem við erum því miður ekki laus við Covid-19 þá þurfum við að ítreka sóttvarnarreglur svo að skólahald getið gengið sem best fyrir sig.
Grímuskylda er í skólanum en taka má grímur niður þegar nemendur hafa fengið sér sæti i kennslustofum.
Virðum nándarmörk, þ.e. einn metra.
Mælt er með að sótthreinsa borð á milli kennslustunda og gæta að persónubundnum sóttvörnum.
Borðum í kennslustofum er raðað upp með einum metra á milli nemenda.
Kennslustofur verða opnar á milli tíma.
Ekki mega fleiri en 200 koma saman í samkomurýmum skólans, t.d. Matgarði, Miðgarði og Norðurkjallara. Forðumst hópamyndanir.
Mælt er að með að nota rakningarapp heilbrigðisyfirvalda.
Ferðalangar sem eru að koma erlendis frá, verða að fara í skimun innan 48 tíma frá komu. Því má ekki koma í skólann fyrr en niðurstaða úr skimun er ljós.
16.08.2021
Um 15 MH-ingar unnu í sumar á Suðurlandsbraut við ýmis störf tengd Covid-19. Þau voru t.d. að aðstoða við að blanda bóluefni, unnu við skráningar ýmiskonar, sýnatökur, keyrslur hraðprófa og að svara almennum fyrirspurnum sem komu í gegnum Heilsuvera.is Flestir nemendur voru í EFNA3DL05 í vor og nokkrir voru á IB-1 og IB-2 .
13.08.2021
Við stefnum á að hefja skólastarf með hefðbundnum hætti þetta haustið og þurfum að hugsa vel um sóttvarnir. Reglur sem gilda í MH í samræmi við reglugerð heilbrigðisráðherra má lesa hér á heimasíðunni undir Covid-19 hnappnum. Við þurfum öll að gera okkar besta í sóttvörnum og gera það saman.