Fréttir

Njáluferð

Nemendur í ÍSLE3CC05 lögðu upp í langferð í morgun og var stefnan tekin á Njáluslóðir. Gaman að fá gott ferðaveður og munu þau væntanlega njóta þess að vera úti og fræðast um gang sögunnar. Frést hefur af þeim við Gunnarsstein og vonum við að ferðin verði fróðleg og skemmtileg. Við eigum von á nemendum aftur heim um kl. 16.

Vertu með - BeActive

Vikuna 23.-30. september fer fram Íþróttavika Evrópu þar sem markmiðið er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi á meðal almennings. Í MH göngum við og hjólum í skólann auk þess að stunda ýmsa aðra hreyfingu. Við hvetjum nemendur og starfsfólk skólans til að taka þátt í íþróttavikunni og stunda hreyfingu til frambúðar. ÍSÍ stendur fyrir verkefninu Göngum í skólann sem stendur til 2. október. Ennþá er hægt að skrá sig til leiks og nánari upplýsingar má finna hér. Fjölbreyttir viðburðir eru í boði um allt höfuðborgarsvæðið alla vikuna og hvetjum við ykkur til að taka þátt. Nánari upplýsingar er að finna inn á viðburðasíðu BeActive.

Fyrstu vörsluútgáfu rafrænna skjala skilað til Þjóðskjalasafns

MH hefur nú skilað rafrænum skjölum til Þjóðskjalasafns í fyrsta sinn, úr skjalastjórnarkerfinu GoPro. Skjölin tilheyra tímabilinu 2018-2023 en rafrænum skjölum skal skila á fimm ára fresti. Skólinn hefur áfram aðgang að skjölunum í GoPro og þarf að geta afgreitt sjálfur allar beiðnir um afhendingu þeirra í 30 ár eftir að þau hafa verið afhent safninu. Töluverð og kostnaðarsöm vinna hefur falist í að skila gögnum úr kerfinu en hún er unnin í samstarfi við Hugvit, rekstraraðila GoPro, og Þjóðskjalasafn. Hugvit umbreytir skjölunum á sérstakt form svo þau verði læsileg um alla framtíð og útbýr svokallaða vörsluútgáfu sem Þjóðskjalasafn fær til varðveislu. Það er fagnaðarefni að Þjóðskjalasafn hefur nú lokið prófunum og frágangi þessarar fyrstu vörsluútgáfu skjala MH.

Fræðslufundur fyrir stórfélag NFMH

Félagslífið byrjar með krafti hér í MH og það má með sanni segja að samheldni einkennir andrúmsloftið í skólanum. Nemendaráðin eru að hefja starfsemi sína og annasamur vetur bíður þeirra. Í tilefni þess var meðlimum þeirra boðið á sérstakan hádegisfund á fimmtudaginn þar sem þau fengu kynningu á ýmsum stuðningi sem ráðunum býðst innan skólans. Nemendur gæddu sér á samlokum á meðan þau hlustuðu á nokkur vel valin örerindi frá Halldóru Sigurðardóttur persónuverndarfulltrúa, Önnu Eir félagsmálafulltrúa og Þórunni félagsmála- og forvarnarfulltrúa, Karen jafnréttis- og samskiptaráðgjafa, Sólrúnu sálfræðingi, ásamt orðsendingum frá Elínu hjúkrunarfræðingi og Kalla húsverði. Við hlökkum til að starfa með þessum flottu fulltrúum í vetur!

Takk fyrir komuna

Takk fyrir komuna á kynningarfund okkar í MH fyrir foreldra og forsjáraðila nýnema haustannar. Eftir ræðu rektors talaði Karen jafnréttis- og samskiptaráðgjafi um áskoranir sem við öll stöndum frammi fyrir í samskiptum. Eftir að Gylfi Guðmundsson hafði sagt frá foreldrafélaginu og starfi þess, kom kórinn og söng. Í lok síðasta lagsins bættust nýliðar kórsins við og upplifðu dynjandi lófaklapp áheyrenda í sal. Eftir það fóru allir í stofur með umsjónarkennurum þar sem farið var yfir ýmislegt sem tengist því að eiga nýnema í MH. Kvöldið endaði svo á spjalli yfir kaffi og kleinum. Takk fyrir komuna.

Styrkur úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

Í gær tóku þrír útskrifaðir nemendur úr Menntaskólanum við Hamrahlíð við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum. Þetta voru þau Embla Sól Óttarsdóttir, Gabríela Albertsdóttir og Tómas Böðvarsson og óskum við þeim innilega til hamingju með styrkinn.

Opin æfing og raddprufur

Í dag mánudaginn 26. ágúst er opin æfing hjá kór Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir alla nemendur skólans. Æfingin hefst kl. 16:15 á Miklagarði og mun Hreiðar Ingi Þorsteinsson ásamt kórnum, taka vel á móti ykkur. Á morgun, þriðjudag, hefjast svo raddprufurnar. Það er alltaf gaman að syngja saman svo við hvetjum áhugasama að kíkja við á Miklagarði.

Skólasetning og upphaf kennslu 19. ágúst

Skólaárið 2024-2025 hefst með skólasetningu rektors á Miklagarði kl. 8:20 mánudaginn 19. ágúst. Að lokinni skólasetningu hefst kennsla samkvæmt stundaskrá.

Nýnemar í MH

Nýnemar mættu í MH í dag og var gaman að líta yfir hópinn og sjá hversu spennt þau voru að byrja í framhaldsskóla. Rektor hélt ræðu á sal og bauð þau velkomin og svo fóru allir í stofur með sínum umsjónarkennara. Nemendur í stjórn NFMH sóttu svo alla hópana og sýndu þeim skólann og sögðu frá helstu kennileitum. Gangan endaði svo í Norðurkjallara þar sem boðið var upp á hressingu. Takk fyrir daginn og sjáumst á mánudaginn þegar skólasetning verður kl. 8:20. Kennsla hefst í beinu framhaldi af henni. Gleðilega önn

Stundatöflur haustannar

Stundatöflur eru tilbúnar í Innu og opnast Inna eftir kl. 16:00 hjá þeim sem greitt hafa skólagjöldin. Nemendur sem voru í MH á síðustu vorönn geta gert töflubreytingar í gegnum Innu til og með föstudeginum 16. ágúst. Eftir það fara töflubreytingar fram hjá námstjórum. Aðrir nemendur sem eru að koma úr grunnskóla eða öðrum framhaldsskólum, geta komið í MH og hitt námstjóra ef þeir telja sig þurfa breytingar á stundatöflunni. Námstjórar verða við milli kl. 10 og 14 þriðjudaginn 13. ágúst og miðvikudaginn 14. ágúst. Allir nýir MH-ingar eru boðaðir í skólann fimmtudaginn 15. ágúst kl. 13:00.