23.04.2007
Nemendur í frönsku 703 hafa skrifað áhugaverðar greinar í evrópskt netblað frönskukennara undanfarnar annir. Viðfangsefni þeirra er ýmislegt tengt landi og þjóð. Ein greinin fjallar til dæmis um íslenska stjórnmálaflokka og gaman að rýna í heiti þeirra á frönsku. Hvaða flokkur skyldi t.d. heita "Les verts de gauche" eða "L'Alliance du Peuple" nú eða "Le Parti de l'Indépendance"? Greinarnar um Ísland hafa slegið svo í gegn að umsjónarmenn blaðsins eru ólmir í að koma til landsins.Þeir sem vilja kíkja og ef til vill láta reyna á frönskukunnáttu sína finna blaðið hér.
27.04.2007
Í morgun buðu stúdentsefni starfsfólki skólans í glæsilegan morgunverð á Matgarði. Þau kvöddu síðan skólann með skemmtun á sal um hádegisbilið og leggja nú í próflestur.
27.03.2007
Í gærkvöldi kom Kór MH undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur heim úr tónleikaferð um Vestfirði. Auk fernra opinberra tónleika, á Bolungarvik, Ísafirði, Flateyri og Þingeyri, söng kórinn á líknarstofnunum, í skólum, í húsi Íslandssögu á Suðureyri og að lokum við Gamla bakaríið í miðbæ Ísafjarðarkaupstaðar.
17.03.2007
MH vann Borgarholtsskóla í ræðukeppni í Háskólabíói í gærkvöldi.Gettu betur lið skólans var einnig sigusælt í gær og etur kappi við MK í undanúrslitum föstudaginn 23. mars.
13.03.2007
Nú sígur á seinni hluta annarinnar og ekki seinna vænna að fara að huga að undirbúningi fyrir lokaprófin. Upplýsingar um próftöflu, prófareglur og fleira má finna með því að smella á Námið á stikunni hér fyrir ofan og skoða síðan Próf á listanum sem birtist til vinstri.
13.03.2007
Nú eiga nemendur að vera búnir að velja áfanga fyrir næsta haust og senda umsjónarkennara sínum póst því til staðfestingar.
05.03.2007
Umsjónarfundur verður mánudaginn 5. mars næstkomandi klukkan 11:10 og mun hann marka upphaf vals fyrir haustönn 2007. Þá eiga nemendur að hitta umsjónarkennara sinn og fá upplýsingar og leiðbeiningar um valið og hvaðeina sem þeir vilja og tími leyfir. Nemendur slá sjálfir inn valið eins og venjulega og fá eina viku til þess eða frá 5. mars til hádegis þann 12. mars. Öllum nemendum er skylt að mæta og velja áfanga fyrir næstu önn.Nánari upplýsingar er að finna í ritinu Áfangar fyrir val í mars 2007
19.02.2007
Lagningardögum er nú lokið þetta vorið og tókust þeir mjög vel. Margt áhugavert var á dagskrá til dæmis fyrirlestur um mannkynssögu í Star Wars, hvernig spila á matador á þýsku eða hvernig hægt er að ferðast til 52 landa á kennaralaunum. Einn af nýju leikfimisölum skólans varð stjörnubjartur þegar þar var sett upp Planetarium, hægt var að læra ballett á Miklagarði, læra sérvíettubrot í st. 12 og fara svo að sjá stærðfræðibíómynd í st. 14 og ótal margt fleira. Margt góðra gesta heimsótti okkur t.d. Freyja Haraldsdóttir sem hélt fyrirlestur sinn ,,Það eru forréttindi að lifa með fötlun" (hún bloggar um heimsóknina á forrettindi.is.) Þráinn Bertelsson ræddi um kvikmyndir sínar, Benedikt Erlingsson hélt spunanámskeið, Samúel Örn ræddi íþróttafréttir og Dóri DNA fjallaði um HipHop svo fátt eitt sé talið.Ný viðbygging skólans var vígð á fyrsta lagningardeginum og þökkum við kærlega öllum þeim sem glöddust með okkur þann dag.
28.02.2007
Í vikunni 19. - 23. febrúar hófu kennarar að vinna og skrá miðannarmat hjá nemendum sem fæddir eru 1990, 1991 eða síðar en það eru flest allir nýnemar haust- og vorannar.Miðannarmatið er byggt á liðlega 7 vikna kynnum og er hugsað sem hvatning til nemenda sem hafa stundað námið vel það sem af er önninni eða sem vísbending um að nemandi þurfi að taka sig á áður en að prófum kemur. Miðannarmatið mun birtast jafnóðum í Innu þegar líða tekur á vikuna en gera má ráð fyrir að það verði að fullu frágengið í byrjun mars.