Fréttir

Opið hús í dag miðvikudaginn 4.mars, kl. 17:30 - 19:00

Á opnu húsi í MH gefst 10. bekkingum og forráðamönnum þeirra tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð í MH, félagslíf nemenda og aðstöðu í skólanum. Boðið verður upp á leiðsögn um skólann þar sem gestir fá að sjá brot af því besta sem skólinn býður upp á. Kennarar og annað starfsfólk kynnir námsframboðið á Miðgarði og Miklagarði og kórinn mun taka lagið. Boðið verður upp á kaffi og kleinur.

Drögum úr sýkingarhættu / Basic protective measures against the coronavirus

Á heimasíðu Landspítalans má lesa um hvernig á að draga úr sýkingarhættu vegna kórónuveirunnar. Þar stendur ýmislegt og snýst það aðallega um það að gæta hreinlætis með því að þvo sér vel um hendurnar og nota spritt. Handspritt7gel er aðgengilegt í kennslustofum, á salernum, bókasafni, matsölu og á skrifstofu. Einnig má lesa sér til á vef landlæknis og þar eru líka sérstakar leiðbeingar til barna og ugmenna. Kynnum okkur öll vel hvað við getum gert. Information from the Directorate of Health can be found at https://www.landlaeknir.is/koronaveira/english/

MH-ingar í 19. almennu landskeppninni í efnafræði

Þann 19. febrúar fór fram 19. almenna landskeppnin í efnafræði. Alls tóku þátt 97 nemendur úr 9 framhaldsskólum. Heimir Páll Ragnarsson nemandi á IB-braut náði 8.-10. sæti og tryggði sér þátttökurétt í úrslitakeppninni sem fer fram í Háskóla Íslands 14.15. mars. Við óskum Heimi Páli innilega til hamingju með árangurinn.

Valvika

Í valviku velja nemendur MH sér áfanga til að taka næsta haust. Undir hnappnum valvika má finna hvaða áfangar eru í boði. Við hvetjum nemendur til að velja vel og rétt miðaða við sína braut og sitt nám. Endanlegt áfangaframboð næsta haust ræðst að stórum hluta af vali nemenda núna í mars. Gott er að ræða við kennarana um hvaða áfangar eru í boði í hverju fagi og einnig eru uppi auglýsngar til að auðvelda valið - því það er úr mörgu að velja.

Góður árangur MH-inga á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna var nýlega haldin í 6. sinn og voru þrír MH-ingar verðlaunaðir fyrir sín verk. Óðinn Jökull Björnsson fékk verðlaun fyrir best tæknilegu útfærðu stuttmyndina sem bar heitið Ferðalok. Oddur Sigþór Hilmarsson hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna í myndinni Mansöngur og þá hlaut Hildur Vaka Bjarnadóttir verðlaun fyrir tónlistina í myndinni Capable. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Vegna kórónaveirunnar/COVID-19

Nokkuð er um ferðalög starfsmanna og nemenda og er mikilvægt að skoða hvaða svæði flokkast undir áhættusvæði þar sem meiri hætta er á samfélagssmiti. Við viljum vekja athygli á ráðleggingum sóttvarnarlæknis vegna kórónuveirunnar/COVID-19. Þær má finna inn á vef Landlæknisembættisins. Þess má geta að þessi áhættusvæði breytast reglulega en í augnablikinu eru þessi svæði Kína, fjögur héruð á Norður Ítalíu (Lombardía, Venetó, Emilia Rómanja og Píemonte), Suður-Kórea og Íran. Við hvetjum alla til að fara eftir ráðleggingum sóttvarnarlæknis sem eru uppfærðar reglulega eftir ástæðum.

MH fær styrk úr Lýðheilsusjóði

MH fékk nýlega afhentan styrk úr Lýðheilsusjóði en það var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem afhenti styrkinn að upphæð kr. 1.000.000-. Bóas Valdórsson sálfræðingur skólans mun stýra verkefninu þar sem samið verður fræðsluefni um svefn fyrir framhaldsskólanema. Fræðsluefnið ætti að koma að góðum notum í kennslu í framhaldsskólum, t.d. í lífsleikni og sálfræði daglegs lífs. Að þessu sinni var úthlutað rúmum 90 milljónum úr Lýðheilsusjóði til 147 verkefna og rannsókna.

MH-ingurinn Krummi verðlaunaður

Krummi Uggason hlaut 3. verðlaun í árlegri smásagnasamkeppni FEKÍ, félags enskukennara á Íslandi. Smásaga hans, Dystopia, fjallar um málaliða í óræðri framtíðarveröld þar sem gleðin er óþekkt hugtak. Verðlaunaafhending fór fram á Bessastöðum í gær en frú Eliza Reid er verndari keppninnar. Þetta er þriðja árið í röð sem MH-ingur hlýtur verðlaun FEKÍ fyrir smásögu. Við óskum Krumma til hamingju með árangurinn.

Valtími

Föstudaginn 28.febrúar k. 14:15 verður valtími þar sem nemendum býðst að hitta umsjónarkennara / valkennara sinn og fá upplýsingar um valið fyrir næstu önn. Allir eru velkomnir og sérstaklega hvetjum við nýnema haustsins 2019 til að mæta og kynna sér málin. Tíminn byrjar kl. 14:15 og er hægt að sjá stofur hér í fréttinni. Valvika hefst 2. mars og stendur út vikuna. Lokað verður fyrir valið eftir mánudaginn 9.mars. Eins og komið hefur fram í bréfi til nemenda þá skiptir miklu máli að velja og velja rétt þar sem áfangaframboð haustannar mótast af valinu núna í mars.

Lagningardagar

Þá er komið að því, lagningardagar 2020 eru byrjaðir. Dagskrána má finna á lagno.org og er búið að bæta við nokkrum viðburðum fyrir fimmtudag og föstudag sem þið skuluð endilega kíkja á. Góða skemmtun.