Fréttir

Úrslit í vegglistasamkeppni nemenda

Nýlega fór fram samkeppni milli nemenda MH um vegglistaverk á gang milli Norðurkjallara og Undirheima. Fjöldi verka barst í samkeppnina og voru verk eftir eftirtalda nemendur valin: Noru Evu Sigurdsson, Hannes Hreim Arason Nyysti, Freyju Stígsdóttur, Elísabetu Maríu Hákonardóttur, Kötlu Björgu Sigurjónsdóttur og Auði Grétu Þórisdóttur. Við óskum þessum nemendum innilega til hamingju með verkin og viðurkenninguna. Í dómnefnd sátu fulltrúar nemenda, kennara og stjórnenda. Alls bárust rúmlega 50 verk í samkeppnina sem staðfestir enn og aftur sköpunarkraftinn sem ríkir á meðal nemenda MH.

Glæsilegur árangur í úrslitum landskeppninnar í efnafræði

MH-ingurinn Oliver Sanchez sigraði í úrslitum landskeppni í efnafræði en hann sigraði einnig forkeppnina sem fór fram fyrir skömmu. MH-ingurinn Telma Jeanne Bonthonneau varð í fjórða sæti og óskum við þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Oliver stundar nám á IB-braut og Telma Jeanne á náttúrufræðibraut. Fjórum stigahæstu keppendum er boðin þátttaka í íslenska landsliðinu í efnafræði 2021. Þeir sem þiggja sæti munu taka þátt í 5. Norrænu efnafræðikeppninni sem (vonandi) verður haldin í Reykjavík dagana 19. - 23. júlí og í 53. Alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði sem verður haldin gegnum netið frá Japan, dagana 24. Júlí -1. ágúst 2021.

Kennsla eftir páska / Teaching after the Easter break

Við vonum að nemendur og starfsfólk hafi haft gott páskafrí. Skipulag skólastarfs eftir páska er sem hér segir: (see English below) • Fullt staðnám í öllum áföngum með einni undantekningu (lífsleikni útskriftarefna). • Kennsla í líkamsrækt verður úti. Nánari upplýsingar hjá kennurum. • Nemendur mega vera 30 saman í rými og ber að virða nándarreglur. • Grímuskylda er í MH. • Rými á Matgarði og Miðgarði eru afmörkuð miðað við leyfilegan fjölda. • Norðurkjallari getur rúmað allt að 60 nemendur, þ.e. 30 í hvoru rými (fremra og aftara rými). • Matsala nemenda, Sómalía, verður opin og selur vörur í lokuðum umbúðum. Virðum reglurnar og höfum einstaklingsbundnar sóttvarnir í fyrirrúmi, þ.e., handþvottur og sótthreinsun eru það allra mikilvægasta. Ef nemendur finna til einkenna tengdum COVID þá eiga þeir að vera heima og tilkynna veikindi á skrifstofu. Nánari upplýsingar um verkferla vegna smits og gruns um smit má finna á heimasíðu skólans.

Páskafrí

Páskafrí hefst eftir daginn í dag og stendur til og með 6. apríl. Skrifstofan verður lokuð og opnar ekki aftur fyrr en kl. 8:30 miðvikudaginn 7. apríl. Við hvetjum ykkur til að njóta páskanna eins og hægt er og safna orku fyrir síðustu vikurnar sem eftir eru af önninni. Við vonumst til að sjá ykkur öll hress eftir páska, gleðilega páska.

Kennsla 25. og 26. mars

Því miður munu hertar sóttvarnarreglur taka gildi á miðnætti. Kennslan næstu tvo daga verður ekki í húsnæði skólans en fer fram rafrænt. Kennarar munu láta nemendur vita hvernig kennslu verður háttað næstu tvo daga og mikilvægt er að vakta INNU og tölvupóst. Nemendur geta sótt bækur og annað dót í skápana sína í skólanum á morgun og föstudag frá 8:00-17:00. Við minnum alla á að fylgja sóttvarnareglum og gerum allt sem við getum til að geta hist í skólanum eftir páska.

Skólakynningu dagsins er frestað

Vegna aukinna smita í samfélaginu ætlum við að fresta skólakynningu dagsins. Aukakynningum hefur verið bætt við og er hægt að skoða tímasetningar og skrá sig hér eða undir viðburðir í dálki hægra megin á heimasíðunni.

Góður árangur í eðlisfræðikeppni

Forkeppni í Landskeppni í eðlisfræði 2021 er lokið og tóku 255 nemendur frá 9 framhaldsskólum þátt. MH-ingar létu sig ekki vanta og stóðu sig vel. Oliver Sanches lenti í fimmta sæti og Hálfdán Ingi Gunnarsson í því sjötta. Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Næsta morð á dagskrá… (Sagan af því hvernig Gréta hætti að gráta)

Leikfélag MH frumsýnir leikritið ,,Næsta morð á dagskrá… (Sagan af því hvernig Gréta hætti að gráta)’’ föstudaginn 19. mars. Leikritið er búið til af leikhópnum alveg frá grunni og hefur það orðið til í gegnum spuna og ýmsar aðrar æfingar. Öll tónlist, danshreyfingar og karakterar í sýningunni eru skapaðir af leikhópnum. Leikritið fjallar í stuttu máli um þrjár morðráðgátur sem eiga sér stað á Hellu. Þeir Helgi Grímur Hermannsson og Tómas Helgi Baldursson, útskrifaðir MH-ingar og útskrifaðir sviðshöfundar af sviðshöfundabraut LHÍ, eru leikstjórar sýningarinnar. Leikritið er sýnt í Undirheimum í MH og hefur leikhópur leikfélagsins unnið hörðum höndum að sýningunni síðan í janúar. Sýnt verður mjög þétt, bæði fyrir og eftir páskafrí, alveg fram að síðustu kennsluviku skólaársins. Sýningarnar eru fleiri en vanalega þar sem færri áhorfendur komast fyrir í salnum vegna sóttvarnarlaga. Miðasalan fer fram á Tix.is. Hér er hlekkurinn á miðasöluna: https://tix.is/is/event/11069/n-sta-mor-a-dagskra/ Vegna sóttvarnarlaga þá geta áhorfendur ekki setið jafn þétt og vanalega. Það á þó aðeins við um almenna áhorfendur en ekki nemendur. Þess vegna verða skipulagðar sérstakar nemendasýningar sem eru einungis fyrir nemendur í MH, þar sem hægt er að fylla salinn.

Grænasta lausnin

Lið frá MH vann í gær sinn flokk í Evrópuverkefni um umhverfisvænustu lausnina í skólastarfi. Verkefnið þeirra snérist um að setja upp verkefnamiðað nám þar sem nemendur gætu verið hvar sem er í heiminum og stundað nám í skólanum. Til hamingju með þetta.

Frábær árangur MH-inga í landskeppninni í efnafræði

Landskeppnin í efnafræði fór fram í framhaldsskólum landsins fimmtudaginn 25. febrúar sl. Alls tóku 88 nemendur þátt, úr fimm skólum. Sigurvegari var Oliver Sanchez MH-ingur, en hann hlaut 67 stig af 100 mögulegum. Telma Jeanne Bonthonneau einnig úr MH varð í 5.-6. sæti. Við óskum þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur.